David de Gea, aðalmarkvörður Manchester United átti ekki góðan dag í tapi gegn Brentford um nýliðna helgi. De Gea segir lélegan árangur liðsins á síðasta tímabili ásækja liðið.

Brentford tók Manchester Untied í kennslustund í ensku úrvalsdeildinni um helgina og fór af hólmi með 4-0 sigur. Manchester United hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum á tímabilinu gegn minni spámönnum og þó stressið hafi verði mikið á Old Trafford fyrir þá er það að ná nýjum hæðum núna.

Í viðtali eftir leik reyndi David de Gea að koma með útskýringar á lélegri byrjun liðsins á tímabilinu. Hann var spurður að því í viðtali eftir leik hvort síðasta tímabil sæti enn í leikmönnum liðsins.

,,Auðvitað, þetta hefur verið erfitt og er án efa enn í hausnum á okkur. Þegar að eitthvað fer úrskeiðis verða menn fljótt stressaðir, þetta er erfið staða. En við verðum að draga lærdóm af þessu, við erum með nýjan stjóra, nýja leikmenn og þurfum að vera jákvæðnari og halda áfram að læra og bæta okkur," sagði David de Gea eftir leik.

Manchester United endaði í 6. sæti í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili og missti þar af leiðandi af sæti í Meistaradeild Evrópu á yfirstandandi tímabili.

De Gea segir frammistöðu liðsins gegn Brentford um nýliðna helgi ekki boðlega en hann átti meðal annars nokkuð stóra sök í að minnsta kosti tveimur mörkum sem liðið fékk á sig.