Simone Biles, besta fim­leika­kona heims, þurfti að hætta keppni eftir einungis eitt á­hald í liða­keppni kvenna í á­halda­fim­leikum á Ólympíu­leikunum í dag.

Biles hóf keppni á stökki en áður en hún hóf keppni var ljóst að ekki væri allt með felldu er hún skráði sig til keppni með auð­veldari stökk en hún gerir vana­lega.

Banda­ríska stór­stjarnan keppir vanalega með Cheng á stökki, sem arabastökk með hálfum snúningi inn á hestinn og framheljarstökk með beinum líkama og einni á hálfri skrúfu af.

Hún skráði sig hins vegar til keppni í dag með Amanar sem Yurchenko stökk með tveimur og hálfri skrúfu sem gildir 0,2 minna í upphafseinkunn. Í miðju stökki hætti hún hins vegar við seinni skrúfuna og gerði bara eina og hálfa skrúfu og lenti afar illa.

Fim­leika­að­dá­endur vestan­hafs voru strax byrjaðir að hafa á­hyggjur af Biles en þær á­hyggjur urðu að veru­leika er hún lenti auð­veldara stökkið afar illa og stóð varla í lappirnar.

Fyrir­komu­lagið hjá á­halda­fim­leikum kvenna á Ólympíu­leikunum er þannig þrjár stúlkur keppa á hverju á­haldi og telur hver einasta æfing inn í loka­ein­kunn liðsins. Slæmt stökk Biles taldist því inn í loka­ein­kunn liðsins og leiddu rúss­nesku stúlkurnar með einum heilum eftir fyrsta áhald.

Það eru hins vegar fjórar stúlkur í hverju liði og mega liðin ráða hvaða þrjár fara upp á hvert á­hald. Hefð er fyrir því að tvær bestu stúlkurnar keppa á öllum á­höldunum og á meðan tvær skipta á milli sín á­höldum eftir styrk­leika og skila þá góðum stigum inn fyrir liðið. Það ætti ekki að koma neinum að óvart að Biles var skráð til leiks á öllum á­höldum.

Eftir stökkið klæddi Biles sig í ólarnar og gerði sig til­búna fyrir tví­slánna en hún hitaði hins vegar ekki upp. Jordan Chiles sem var ekki skráð til keppni á tví­slá var hins vegar mætt í upp­hitunina í stað Biles. Mikil ó­vissu var í gangi bæði í út­sendingu og á sam­fé­lags­miðlum um hvað væri að ské en skömmu síðar fékkst það stað­fest að Biles hefði dregið sig úr keppni.

Simone Biles að keppa á stökki í upphafi móts. Það reyndist eina áhaldið hennar.
Ljósmynd/AFP

Ekki lengur með „svind­karlinn“ Simone Biles

Ís­lands­vinurinn John Roet­hlis­berger, sem lýsir fim­leikunum á NBC sjón­varps­stöðinni í Banda­ríkjunum, tilkynnti í útsendingunni að Biles hefði dregið sig úr keppni vegna á­lags fremur en meiðsla.

Banda­ríkin og Rúss­neska Ólympíu­sam­bandið kepptu á víxl á sama á­haldi og fengu þær rúss­nesku blóð á tennurnar eftir að Biles dróg sig úr keppni.

Guð­mundur Brynjólfs­son, sem lýsir fim­leikunum á RÚV, rifjaði upp fleyg orð formanns Rúss­neska fim­leika­sam­bandsins er hann lét út úr sér að rúss­nesku stelpurnar myndu vinna Banda­ríkin ef þær væru ekki með „svind­karlinn“ Simone Biles. Tæki­færið fyrir þær rúss­nesku var því núna.

Hin tuttugu og eins ár gamla Angelina Melni­kova hóf keppni á tví­slánni og fram­kvæmdi frá­bærar æfingar.

Melnikova að gera tvöfalt heljarstökk með tvöfaldri skrúfu í afstökk á tvíslá.
Ljósmynd/AFP

Hin Banda­ríska Sunisa Lee, ein besta tví­slár-kona heims, fór svo upp á ránna á eftir Melni­kovu og hélt Banda­ríkjunum í keppninni.

For­skot Rúss­lands hins vegar jókst og eftir tví­slánna leiddi rúss­neska liðið með tveimur heilum stigum.

Eftir að Biles dróg sig úr keppni var ljóst að Chiles myndi þurfa fara upp á jafn­s­vægis­slánna í hennar stað líka. Chiles datt tvisvar á slánni í undan­keppninni og því ekki ó­lík­legt að margir Banda­ríkja­menn voru með sveitta lófa er hún steig upp á slánna.

Hin tví­tuga Chiles var hins vegar hin öruggasta á jafnvægisslánni. Það var ljóst að þungi fargi var létt að Banda­ríska liðinu er þjálfarar og liðsfélagar hennar fögnuðu ákaft er hún lenti af­s­tökkið sitt.

Jordan Chiles í undankeppninni.
Ljósmynd/AFP

Hrein lendingarkeppni fyrir síðasta áhaldið

Föll hjá rúss­neska liðinu á jafn­vægis­slánni settu strig í reikninginn og leiddu Rússar með einungis 0,8 á fyrir síðasta á­haldið. Hvert fall í fim­leikum telur 1,0 og því má segja að allt stefndi í hreina lendingar­keppni á gólfinu, sem var síðasta á­haldið hjá liðunum tveimur.

Grace Mc­Callum byrjaði fyrir Banda­ríkin og gerði smá­vægi­leg mis­tök í fyrstu tveimur stökk­seríunum og var því hjallinn sem banda­ríska liðið þurfti að klífa orðinn stærri.

Hin rússneska Urazova kom þar á eftir með stíl­hreina og örugga gólfæfingu og var ekki sama stemming í Banda­ríska liðinu eftir að hún lauk æfingum sínum á gólfinu.

Vladislava Urazova á slá í dag.
Ljósmynd/AFP

Byrjaði að brosa undir lok æfingarinnar

Chiles fór næst upp á gólfið og byrjaði gólfseríuna sína að krafti með tvö­földu heljar­stökki með beinum líkama og heilli skrúfu. Hún negldi sér beint í annað tvö­falt heljar­stökk með beinum líkama án skrúfu og leit staðan á­gæt­lega út fyrir Banda­ríkin.

Í næst síðasta stökkinu hins vegar fór eitt­hvað á mis og lenti Chiles á rassinum og flaug út af gólfinu. Þegar ein­kunnin kom í hús var ljóst að verk­efnið væri ó­mögu­legt en Chiles fékk 11,700. Ein­kunn sem myndi ekki skila henni Ís­lands­meistara­titli á gólfi einu sinni. Rúss­nesku stelpurnar héldu hins vegar sínu striki á gólfinu. Listunova lét á­lagið ekkert á sig fá og gerði frá­bæra æfingu og fékk 14,333.

Sunisa Lee lauk keppni fyrir þær banda­rísku og gerði flotta gólfseríu en ein­kunnin 13,666 gerði alls ekki nóg til að höggva í for­skot rússa.

Melin­kova, sem er marg­faldur verð­launa­hafi á gólfi, var síðasti keppandi dagsins. Hún var byrjuð að brosa eftir síðustu stökk­seríuna áður en æfingunni lauk þegar hún og aðrir vissu að þetta væri komið.

Biles óskaði Rússnesku stúlkunum til hamingju með sigurinn.
Ljósmynd/AFP

Rússar Ólympíumeistarar og Bretar með brons

Fagnaðar­lætin leyndu sér ekki hjá rússneska liðinu þegar niður­staðan var ljós. Simone Biles sást í bak­grunni faðma liðs­fé­laga sína áður en hún og banda­rísku stelpurnar gengu yfir til þeirra rúss­nesku og óskuðu þeim til hamingju.

Bresku stúlkurnar gerðu sér síðan litið fyrir og nældu sér í bronsið í liða­keppni kvenna. Ítölsku stúlkurnar voru í þriðja sæti fyrir síðustu um­ferðina en þær áttu eftir að stíga upp á jafn­vægis­slánna. Þær náðu ekki sínu striki á slánni og tóku Bretar þriðja sætið á loka­metrunum.

Rússnesku stúlkurnar Liliia Akhaimova, Angelina Melnikova, Viktoriia Listunova og Vladislava Urazova eftir að úrslitin voru ljós.
Ljósmynd/AFP