Þrír kylfingar af LIV-mótaröðinni, þar á meðal Ian Poulter, verða meðal þátttakenda á næstu þremur mótum á Evrópumótaröðinni eftir að íþróttadómstóll í Bretlandi (e. Sports Resolutions) samþykkti að fresta banninu á meðan áfrýjun stendur yfir.

Umræddir kylfingar, Poulter, Justin Harding og Adrien Otaegui, kærðu úrskurð Evrópumótaraðarinnar að þeir væru komnir í bann fyrir að taka þátt í mótum á LIV-mótaröðinni.

Evrópumótaröðin sektaði umrædda kylfinga um hundrað þúsund pund og setti þá í bann frá þremur viðburðum sem eru hluti af samstarfsverkefni mótaraðarinnar og PGA-mótaraðarinnar.

Stjórnarmeðlimur Evrópumótaraðarinnar staðfesti í samtali við Sky að Poulter, Harding og Otaeugui yrðu meðal þátttakenda á næstu mótum en að það ætti enn eftir að úrskurða í málinu.