Dómaranefnd KKÍ sendi frá sér tilkynningu í dag þar sem fram kom að dómarinn hefði beðist afsökunar á að hafa meinað Unni Töru Jónsdóttur, leikmanni KR og lækni, inn á völlinn til að hlúa að liðsfélaga sínum í gær.

Atvikið átti sér stað í leik KR og Vals í gær þegar Sóllilja Bjarnadóttir lenti illa eftir frákastabaráttu við Helenu Sverrisdóttur og lá eftir.

Unnur Tara er menntaður læknir og var því áfjáð í að komast inn á völlinn til að aðstoða liðsfélaga sinn en Ísak Ernir Kristinsson, einn dómara leiksins, bannaði henni að koma inn á völlinn og endaði á að dæma tæknivillu á Unni.

Samkvæmt yfirlýsingunni frá KKÍ hefur Ísak breytt um skoðun og dómaranefndin er sammála um að þetta hafi verið mistök en staðreyndin sé sú að aðeins liðslæknum sé heimilt að fara inn á völlinn án heimildar dómara.

Yfirlýsinguna í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Yfirlýsing frá dómaranefnd KKÍ

Í leik KR-Vals í Domino´s deild kvenna miðvikudaginn 16.október gerist það atvik að tveir leikmenn lenda saman og við það meiðist leikmaður KR. Í kjölfarið óskar leikmaður KR eftir því að fara inná völlinn þar sem hún er læknir til þess að hlúa að leikmanninum sem hafði meiðst.

Eftir á að hyggja er dómarinn þeirrar skoðunar að það hafi verið mistök af sinni hálfu að hleypa ekki leikmnanninum inn á völlinn. Dómaranefnd er sammála dómaranum um að mistök hafið verið að ræða þegar að leikmanninum var synjað um að fara inn á völlinn.

Til fræðslu þá ber þess að geta að eingöngu liðslæknum er heimilt að fara inn á völlinn án heimildar dómara samkvæmt reglum, þjálfarar og leikmenn geta aldrei talist sem liðslæknar í þeim tilvikum.

Það er samt alltaf þannig að erfitt er að fara yfir einstaka mál sem gerast í leikjum á milli dómara og hlutaðeigandi einstaklinga og það á einnig við hér.

Jón Bender

formaður dómaranefndar KKÍ