Af öllum stórstjörnunum sem hægt var að tala um fyrir og eftir leik PSG og Atalanta var áberandi fjarvera Slóvenans Josip Ilicic, eitthvað sem margir ræddu um og veltu fyrir sér.

Ilicic hefur ekki spilað síðan Atalanta mætti Juventus um miðjan júlí og fjarvera hans var fyrst útskýrð með meiðslum. En Ilicic er stórstjarna, bæði í heimalandinu og á Ítalíu, eftir frábært tímabil þar sem hann skoraði 21 mark í 34 leikjum. Slúðurblöðin í báðum löndum fóru að slá upp fréttum um að fjarvera hans væri andleg vanheilsa vegna framhjáhalds konunnar hans.

Eftir að hafa verið í einangrun vegna COVID-faraldursins sem fór illa með íbúa Bergamo, sem Atalanta er frá, fékk leikmaðurinn leyfi til að heimsækja heimalandið og koma konunni sinni á óvart. Þar á að hafa blasað við honum sú sýn sem flesta langar nákvæmlega ekkert að sjá. Konan hans með öðrum manni.

Eftir atvikið helltist yfir hann þunglyndi, sem hann þekkir vel, og mætti hann aftur á æfingar hjá Atalanta, samkvæmt Corriere dello Sport, fimm kílóum léttari og virkaði orkulaus. Hann hafi vissulega mætt á æfingar en samkvæmt blaðinu var eins og hann væri ekki á staðnum.

Síðan þá hefur andlegri heilsu hans hrakað og leyfði félagið honum að snúa aftur til heimalandsins til að ná heilsu. Fjölmargir hafa sent honum batakveðjur og í miðri viku setti hann story á Instagram þar sem hann birti myndir af sér og frúnni og neitaði fréttunum um framhjáhaldið.

Í gær bárust fréttir um að Ilicic væri að íhuga að leggja skóna á hilluna, aðeins 32 ára og nýbúinn að eiga sitt besta tímabil. Ástæðan væri þunglyndi.

Ilicic er fæddur 1988 í þáverandi Júgóslavíu. Þegar stríðið braust út var faðir hans myrtur, þegar Josip var aðeins eins árs. Fjölskyldan flúði til Slóveníu þar sem hann ólst upp. Eftir að hafa gengið upp metorðastigann í heimalandinu var hann keyptur til Interblock í efstu deild. Þegar liðið féll var hann álitinn einn efnilegasti leikmaður landsins og endaði sem markahæsti leikmaður liðsins. En hann spilaði ekki síðustu leikina og íhugaði að hætta, samkvæmt ítölskum miðlum. Zlatko Zahovic, sem var yfirmaður fótboltamála hjá Maribor sannfærði hann þó um að koma til liðsins. Þar stoppaði hann stutt. Skoraði eins og vindurinn, meðal annars í Evrópukeppninni gegn Palermo, sem stökk til og keypti piltinn.

Eftir fína frammistöðu var hann seldur til Fiorentina þar sem hann varð náinn fyrirliðanum, Davide Astori. Þegar sá lést skyndilega tók við mikil sorg hjá Ilicic sem eðlilega tók atvikið mjög nærri sér. „Ég þjáðist í marga daga og svaf sama sem ekki neitt,“ sagði Ilicic í viðtali við Corriere dello Sport.

Skömmu eftir dauða vinar síns fékk hann slæma bakteríusýkingu og þurfti að leggjast inn á sjúkrahús. Þar þorði hann ekki að fara að sofa, því hann var hræddur um að vakna ekki aftur. „Þegar ég var veikur hugsaði ég mikið til Astori og að þetta gæti komið fyrir mig. Að sjá ekki fjölskylduna mína aftur. Ég var hræddur við að loka augunum,“ sagði hann í viðtalinu.

Hann hætti að horfa á fótbolta og einbeitti sér að heilsunni og fjölskyldu sinni. „Á einum tímapunkti vonaðist ég bara eftir að ná heilsu. Mér var alveg sama um fótboltann,“ sagði kappinn. Hann náði heilsu og átti stórkostlegt tímabil þar sem öskubuskuævintýri Atalanta gladdi heiminn og kannski sérstaklega íbúa Bergamo, en borgin fór skelfilega út úr COVID-faraldrinum. Því miður lítur út fyrir að ævintýrið sé á enda hjá Ilicic.

Í könnun sem FIFPRO, alþjóðlegu leikmannasamtökin, létu gera í apríl kom fram að þunglyndi hefði lagst á marga fótboltamenn og -konur. Alls tóku 1602 leikmenn frá 16 löndum þátt í könnuninni og 22 prósent í kvennadeildunum sögðust hafa upplifað þunglyndi síðan COVID-ástandið kom upp og 13 prósent karla.

Í svipaðri könnun sem gerð var í desember voru tölurnar 11 prósent hjá konunum en sex prósent hjá körlunum. Í lokaverkefni Margrétar Láru Viðarsdóttur í íþróttafræði við Háskólann í Reykjavík árið 2015 kom fram að niðurstöður rannsóknar hennar gæfi vísbendingar um að þunglyndi og kvíði meðal íslenskra atvinnumanna í boltaíþróttum geti verið allt að helmingi algengara en hjá öðrum.