Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic er meðal þátttakenda á Opna ástralska meistaramótinu í tennis, þrátt fyrir umræðu um að hann myndi ekki fá að taka þátt í mótinu vegna afstöðu sinnar gegn bólusetningu við Covid-19.

Djokovic hefur ávallt neitað að staðfesta hvort að hann hafi þegið eða hafnað bóluefni við Covid-19.

Fyrir vikið hefur umræðan snúist um hvort að hann myndi fá þátttökurétt á Opna ástralska meistaramótinu í janúar en stjórnvöld í Ástralíu hafa til þessa sagt að það verði engar undanþágur veittar. Óbólusettir einstaklingar þurfi að fara í sóttkví við komuna til landsins.

Serbinn er jafn Roger Federer og Rafa Nadal yfir flesta stórmeistaratitla í karlaflokki með tuttugu meistaratitla og gæti skotist fram úr þeim í Melbourne.

Hann hefur titil að verja í Ástralíu og vann þrjá af fjórum risatitlum síðasta árs.

Um leið varð staðfest að Serena Williams, ein besta íþróttakona allra tíma, mun ekki gefa kost á sér en hún er enn að ná sér af meiðslum sem tóku sig upp á Wimbledon fyrr á þessu ári.

Serena hefur unnið 23 risatitla og vantar einn risatitil til að jafna met hinnar áströlsku Margaret Court.

Serena vann 23. risatitilinn einmitt í Melbourne en stuttu seinna greindi hún frá því að hún væri ólétt.

Tennisgoðsögninni hefur ekki tekist að bæta við risatitli eftir það og hefur hún glímt við talsvert af meiðslum undanfarin ár.