Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic ætti að geta varið titilinn á Wimbledon risamótinu í tennis eftir að ákveðið var að falla frá skyldu um bólusetningar á viðburðum eins og Wimbledon mótinu.

Mótshaldarar eru búnir að tilkynna að ákveðið hafi verið að falla frá öllum takmörkunum sem fellir um leið úr gildi kröfu um bólusetningu við Covid-19.

Eins og frægt er var Djokovic vísað úr landi í Ástralíu fyrr á þessu ári fyrir að framvísa ólöglegum skjölum um undanþágu frá bólusetningarskyldu.

Serbinn hefur tvisvar fengið Covid og neitaði að þiggja bóluefni.

Þá eru frönsk yfirvöld búin að aflétta kröfu um bólusetningar á stærri viðburðum líkt og Opna franska meistaramótinu í tennis og ætti Djokovic að geta tekið þátt í París í sumar.

Stjórnvöld í Frakklandi fullyrtu fyrr á þessu ári að það yrði ekki gerð undanþága fyrir einstaklinga sem neituðu bólusetningum.