Serbneski tenniskappinn Novak Djokovic staðfesti í dag að hann myndi taka þátt á Opna ástralska meistaramótinu í tennis, fyrsta risamóti ársins, eftir að hafa fengið undanþágu frá bólusetningarkröfu ástralskra stjórnvalda.

Djokovic hefur til þessa forðast spurningar um hvort að hann sé bólusettur eða ekki.

Mótshaldarar gáfu það út að það þyrfti að vera að læknisráði sem einstaklingar gætu fengið undanþágu frá bólusetningu og virðist Djokovic hafa tryggt sér slíkar ráðleggingar.

Hann staðfesti á Instagram að hann hafi fengið undanþágu að læknisráði og muni því keppa í Melbourne að þessu sinni.

Djokovic hefur unnið 20 risatitla á ferlinum, þar á meðal þrjá risatitla á síðasta ári. Honum vantar einn risatitil til að verða sá sigursælasti á risamótunum karlamegin en hann deilir efsta sætinu með Rafa Nadal og Roger Federer.