Eric Dier, miðvallarleikmaður enska knattspyrnufélagsins, hef­ur verið úr­sk­urðaður í fjög­urra leikja bann af aga- og úrskurðarnefnd. Auk leikbannsins var Dier sektaður um 40 þúsund pund en hann fær fyrrgreinda refsingu fyrir háttsemi sína eftir leik Totten­ham Hotspur og Norwich City í enska bik­arkeppninni í knattspyrnu karla í mars fyrr á þessu ári.

Eftir þann leik birtist myndskeið af Dier á samfélagsmiðlum þar sem hann hljóp upp í stúku á London-leikvanginum og labbaði hratt í átt að stuðningsmanni sem hafði veist að bróður miðjumannsins á meðan á leiknum stóð sem og eftir leikinn.

Tottenham Hotspur á fimm leiki eftir í ensku úrvalsdeildinni á yfirstandandi leiktíð og mun Dier því einungis vera löglegur í lokaumferð deildarinnar. Liðið situr í áttunda sæti deildarinnar með 48 stig en liðið lagði Everton að velli með einu marki gegn engu fyrr í vikunni og hélt þar með lífi í von sinni um að leika í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.