Díana Dögg Magnúsdóttir, landsliðskona í handbolta, hefur skrifað undir samning við þýska liðið BSV Sachsen Zwickau en liðið leikur í næstefstu deild í Þýskalandi

Díana Dögg hefur verið lykilmaður í Valsliðinu undanfarin ár en hún gekk til liðs við Hlíðarendafélagið frá ÍBV vorið 2016. Frammistaða hennar með Val hefur skilað henni sæti í íslenska landsliðinu og nú atvinnumannasamningi.

Þessi 23 ára gamla skytta skoraði tæplega fjögur mörk í þeim 18 deildarleikjum sem hún spilaði fyrir Val á síðasta keppnistímabili en þá var hún sömuleiðis einn af lykilleikmönnunum í varnarleik Valsliðsins.