Ársreikningur Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, var lagður fyrir ársþing sambandsins um síðustu helgi og var hann samþykktur þar. Ársreikningurinn litaðist eðlilega af kórónaveirufaraldrinum en sem dæmi má nefna að laun og launatengd gjöld voru 14 milljónum undir áætlun á meðan skrifstofu- og stjórnunarkostnaður var um 22 milljónum yfir áætlun.

KSÍ greiddi svo Deloitte sex milljónir króna vegna ráðgjafar tengdrar COVID-19.

„Sérfræðiráðgjöf vegna COVID var unnin af Deloitte og fól meðal annars í sér söfnun upplýsinga um fjárhagsstöðu og greiningu á henni frá öllum aðildarfélögunum vegna áhrifa COVID. Tóku þeir fjölda funda með KSÍ og félögunum og voru svo einnig félögunum og sambandinu til ráðgjafar bæði með umsóknir, umsagnir og hagsmunagæslu varðandi úrræði og frumvörp stjórnvalda,“ segir Guðni um ráðgjöf sem Deloitte vann fyrir KSÍ vegna hluta sem tengjast COVID.

„Sambandið nýtti sér hlutabótaleið stjórnvalda að litlum hluta þar sem starfsemi sambandsins hélt velli að mestum hluta,“ segir Guðni Bergsson, sem var sjálfkjörinn sem formaður KSÍ til næstu tveggja ára á ársþingi sambandsins.

Þá hækkaði stjórnunar- og skrifstofukostnaður sökum gjaldfærslu vegna FIFA ID um 28 milljónir. FIFA ID er kerfi sem öll knattspyrnusambönd eru skyldug til að innleiða að kröfu Alþjóðaknattspyrnusambandsins, FIFA.

FIFA ID er auðkenni sem allir leikmenn, þjálfarar og dómarar aðildarlanda FIFA þurfa að fá og fylgir þeim sama hvar þeir starfa. FIFA ID gerir það að verkum að til verður sameiginlegur gagnagrunnur allra félaga, leikmanna, þjálfara, dómara og fleira á heimsvísu.

Mun það einfalda til muna greiðslu uppeldis- og samstöðubóta sem starfsfólk FIFA mun sjálft koma til með rukka og greiða til viðeigandi félaga með notkun á svokölluðu „Clearing House“. Kerfið mun koma í veg fyrir hvers konar tvískráningar leikmanna eða félaga og gera FIFA kleift að rekja stöðu og félagaskiptasögu allra skráðra leikmanna í heiminum.