Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar hefur afgreitt í auglýsingu deiliskipulagsbreytingu í Laugardal sem felur í sér rými fyrir Þjóðarhöll. Frá þessu er sagt í tilkynningu á vef borgarinnar.
Í breytingunni sem lögð er til felst að lóð og byggingarreitur Laugardalshallar stækka og að innan byggingarreitsins sé gert ráð fyrir Þjóðarhöll fyrir innanhúsíþróttir og viðburði.
Hámarks byggingarmagn nýrrar Þjóðarhallar er 19.000 m2 en á móti umræddri stækkun minnkar jafnframt önnur lóð og framlengdur Vegmúli inn í Laugardal og lóð fyrir bílakjallara sunnan byggingar ÍSÍ og ÍBR eru felld út úr skipulagi, samkvæmt deiliskipulags- og skýringaruppdrætti Landslags ehf.
Samþykkt Umhverfis- og skipulagsráðsins í þessum efnum var vísað áfram til borgarráðs.

Tenging við borgarlínu
Þjóðarhöllin verður áberandi í borgarlandinu
Í deiliskipulaginu sem fer í auglýsingu segir að nýja þjóðarhöllin verði áberandi í umhverfi Laugardalsins.
„Áhersla verður á vandaða byggingarlist. Hönnun byggingarinnar skal innifela viðurkennt umhverfisvottunarferli og miðast við að byggingin hljóti slíka vottun eins og t.d. BREEAM fyrir byggingar.
Gert er ráð fyrir að aðalgólf Laugardalshallar, frjálsíþróttahallar og Þjóðarhallar verði allar í sömu hæð. Aðstæður í landi gera það að verkum að Þjóðarhöllin mun grafast að hluta til inn í hæðarmun frá Laugardalshöll upp að samgöngustíg norðan Suðurlandsbrautar.“
Þá segir að við staðsetningu aðalinnganga sé mikilvægt að horfa til væntanlegrar borgarlínustöðvar á Suðurlandsbraut, vestan gatnamót við Vegmúla.
140 bílastæði hverfa
Gert er ráð fyrir að núverandi aðgreindir hjóla- og göngustígar norðan Suðurlandsbrautar fari óbreyttir í gegnum suðurjaðar breytingarsvæðisins.
„Sérstaklega skal huga að leiðum frá fyrirhugaðri borgarlínustöð á Suðurlandsbraut bæði að nýrri Þjóðarhöll og öðru aðdráttarafli í Laugardal. Aðkomuleiðir að Þjóðarhöllinni verða greiðar fyrir gangandi frá borgarlínustöð og aðgengilegar öllum.
Byggingarreitur Þjóðarhallar fer yfir 140 bílastæði aftan við Laugardalshöll og Frjálsíþróttahöll.
„Ekki er gert ráð fyrir að bæta þau stæði upp með nýjum stæðum annars staðar á lóðinni. Fellur það að hugmyndum um að draga úr bílaumferð í Laugardal og leggja auknar áherslur á vistvæna samgöngumáta. Borgarlínustöðin gegnir þar lykilhlutverki.“