Olís-deild kvenna hefst annað kvöld eftir hálfs árs hlé. Margar landsliðskonur hafa bæst í deildina fyrir komandi tímabil og verða fleiri félög sem geta gert atlögu að Íslandsmeistaratitlinum en undanfarin ár.

Undanfarin ellefu ár hafa þrjú lið unnið meistaratitilinn í kvennaflokki. Valur hefur unnið fimm Íslandsmeistaratitla, Fram fjóra og Grótta tvo.

Í ár eru fleiri landsliðskonur komnar í deildina sem ætti að gera deildina jafnari og samkeppnishæfari.

Fram sem er spáð er deildarmeistaratitlinum í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna deildarinnar er með mikið breytt lið frá því vor. Karen Knútsdóttir og Þórey Rósa Stefánsdóttir eru í barneignaleyfi og Hafdís Renötudóttir er að jafna sig eftir höfuðhögg þessa stundina. Spennandi verður að sjá hver þróunin verður hjá Lenu Margréti Valdimarsdóttur.

Kristrún Steinþórsdóttir verður í stóru hlutverki á báðum endum vallarins og þá er skemmtilegt jafnvægi í skyttustöðunum þar sem Hildur Þorgeirsdóttir er klókur leikmaður sem vinnur vel með Steinunni Björnsdóttur inni á línunni og horninu er öðru megin og Ragnheiður Júlíúsdóttir með mikla skotógn hinum megin.

ÍBV hefur fengið til sín sterka leikmenn í sumar en þar má nefna skytturnar Birnu Berg Haraldsdóttur og Hrafnhildi Hönnu Þrastardóttur. ÍBV hefur svo í sínum röðum Ester Óskarsdóttur, Ásta Björt Júlíusdóttir og Sunna Jónsdóttir þannig að breiddin er fín í útitlínu liðsins.

Valsliðið mætir með talsvert breytt lið frá liðinu sem varð deildar-, bikar og Íslandsmeistari í fyrra.
fréttablaðið/ernir

Valur er með nokkuð breytta sveit á komandi vertíð en Íris Björk Símonardóttir hefur lagt skóna á hilluna og Díana Dögg Magnúsdóttir og Sandra Erlingsdóttir eru farnar erlendis að spila.

Til þess að fylla þessi skörð hefur Valur fengið Sögu Sif Gísladóttur, Þórey Önnu Ásgeirsdóttur, Mariam Eradze og hina fjölhæfu Huldu Dís Þrastardóttur. Fyrir hjá Valsliðinu eru svo Lovísa Thompson, Arna Sif Pálsdóttir, Ásdís Þóra Ágústsdóttir og góðir hornamenn þær Auður Ester Gestsdóttir og Ragnhildur Edda Þórðardóttir.

Stjarnan mætir til leiks með nýjan þjálfara í brúnni en Rakel Dögg Bragadóttir tók við stjórnartaumunum hjá liðinu síðasta vor. Eva Björk Davíðsdóttir og Helena Rut Örvarsdóttir eru komnar Stjörnuna og þá komu Katla María Magnúsdóttir frá Selfossi og Anna Karen Hansdóttir frá Danmörku.

KA/Þór stimplaði sig inn í umræðuna um þau lið sem gæti gert sig gildandi með því að leggja Fram að velli í Meistarakeppni HSÍ í vikunni. Skiptir miklu máli fyrir norðankonur að hafa fengið Rut Arnfjörð Jónsdóttur í sínar raðir. Þá er Martha Hermannsdóttir mikilvæg fyrir liðið á báðum endum vallarins og Akureyrarliðið er að ala upp öflugar handboltakonur og má þar sem dæmi nefna hægri hornamanninn Rakel Söru Elvarsdóttur. Matea Lonac er svo með bestu markvörðum deildarinnar.

Ofangreind fimm lið eru fyrirfram líklegust til þess að komast úrslitakeppni deildarinnar en sex lið munu spila þar að þessu sinni. Búast má svo við þriggja liða fallbaráttu og atlögu þeirra sömu liða að sjötta og síðasta sætinu í úrslitakeppninni þar sem HK, Haukar og FH munu berjast.

Franska skyttan Britney Cots þarf að eiga gott tímabil ef FH ætlar að forðast fallsæti.
fréttablaðið/ernir

Þrír leikmenn HK eru í endurhæfingu eftir að hafa slitið krossband. Það eru varnarmaðurinn öflugi Berglind Þorsteinsdóttir, hin unga og efnilega Jóhanna Margrét Sigurjónsdóttir og Þóra María Sigurjónsdóttir sem kom frá Aftureldingu í sumar. Mikið mun mæða á Valgerði Ýr Þorsteinsdóttir, Díönu Kristínu Sigmarsdóttur og Sigríði Hauksdóttur.

Haukar eru með nokkuð svipað lið að styrkleika og í fyrra. Alexandra Líf Arnardóttir færði sig um set til HK og liðið missti Guðrúnu Erlu Bjarnadóttir til Fram. Sænska skyttan Sara Odden verður áfram í lykilhlutverki hjá liðinu og þá verður skyttan Berta Harðardóttir burðarás í liðinu.

Franska skyttan Britney Cots er í stóru hlutverki bæði í sóknar- og varnarleik FH-liðsins. FH-ingar urðu fyrir blóðtöku þar sem Ragnheiður Tómasdóttir sem var markahæsti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð er farin til Slóvakíu í læknanám. Þá er Embla Jónsdóttir sömuleiðs farin til Þýskalands. Gaman verður að fylgjast með hvernig Emilía Ósk Steinarsdóttir mun pluma sig í efstu deild.