David de Gea markvörður enska úrvalsdeildarliðsins í knattspyrnu Manchester United hefur skrifað undir nýjan samning við félagið sem gildir til ársins 2023.

Miklar umræður hafa verið um framtíð spænska markvarðarins sem leikið hefur í átta ár fyrir Manchester United um framtíð hans hjá félaginu síðustu mánuðina.

De Gea sem kom til Manchester United frá Atlético Madrid árið 2011 hefur spilað 367 leiki fyrir enska liðið og hefur á þeim átta árum sem hann hefur leikið með liðinu orðið Englandsmeistari, enskur bikarmeistari, unnið enska deildabikarinn og borið sigur úr býtum í Evrópudeildinni.

Manchester United er eins og sakir standa í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar með átta stig eftir fimm umferðir en liðið lagði Leicester City að velli með einu marki gegn engu í fimmtu umferð deildarinnar á Old Trafford um helgina.