Ole Gunnar Solskjaer á von á því að gengið verði frá nýjum samningi við David de Gea á næstu dögum þegar markvörðurinn á níu mánuði eftir af samningnum.

Viðræður við umboðsmenn De Gea hafa staðið yfir í tæp tvö ár og nýtti United sér ákvæði um að framlengja samninginn um eitt ár fyrir ári síðan.

Spænska markverðinum verður heimilt að ræða við félög erlendis frá og með 1. janúar næstkomandi og vill stjórn United því ná að semja við De Gea fyrir áramót.

De Gea hefur óskað eftir því að verða launahæsti leikmaður félagsins og virðist félagið ætla að gefa eftir og bjóða honum þau laun sem hann óskaði eftir.