Kevin De Bruyne skoraði tvö marka Manchester City og lagði upp það þriðja þegar Manchester City vann einkar sannfærandi 3-0 sigur á móti Arsenal í 17. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu karla á Emirates í dag.

Belgíski sóknartengiliðurinn skoraði fyrsta og þriðja mark Manchester City í leiknum og átti svo stoðsendinguna í öðru marki gestanna í leiknum sem Raheem Sterling skoraði. Öll mörkin komu í fyrri hálfleik.

De Bruyne hefur nú skorað átta mörk í deildinni á leiktíðinni en þá hefur hann þar að auki lagt upp 11 mörk fyrir liðsfélaga sína í vetur. Hann er stoðsendingahæsti leikmaður deildarinnar.

Leikmenn Manchester City hafa gott tak á kollegum sínum hjá Arsenal en þeir hafa haft betur í síðustu sex leikjum liðanna í öllum keppnum en fimm af þeim sigrum hafa komið í deildarleikjum.

Manchester City er í þriðja sæti deildarinnar með 35 stig en liðið er 14 stigum á eftir forystusauði deildarinnar, Liverpool, og fjórum stigum á eftir Leicester City sem situr í öðru sæti.

Arsenal er hins vegar í níunda sæti deildarinnar með 22 stig en liðið hefur tvö stig úr þeim þremur deildarleikjum sem bráðabirgðastjóri Freddie Ljungberg hefur stýrt liðinu. Það var tómlegt um að lítast á Emirates undir lok leiksins en margir stuðningsmenn Arsenal yfirgáfu völlinnn áður en leik leik.