Davíð Þór Viðarsson sem verið hefur fyrirliði karlaliðs FH í knattspyrnu undanfarin ár hefur ákveðið að láta gott heita á knattspyrnuferli sínum og leggja skóna á hilluna eftir að yfirstandandi leiktíð lýkur.

Þetta staðfestir hann í samtali við vefmiðilinn 433.is í morgun þar sem hann segir: „Ég hætti eftir þetta tímabil, þetta er síðasta árið. Ég hefði viljað hætta með titli, þetta var mjög svekkjandi um helgina."

Davíð Þór spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir FH þar sem hann ólst upp í sigursælum 1984 árangri árið 2000 en hann varð sjö sinnum Íslandsmeistari og einu sinni bikarmeistari með Hafnarfjarðarliðinu.

Frá 2002 til 2004 spilaði Davíð Þór með norska liðinu Lilleström, var svo lánaður til belgíska liðsins Lokeren frá 2006 til 2007 og var leikmaður sænska liðsins Öster og danska liðsins Velje frá 2010 til 2013.

Þá hefur Davíð Þór leikið níu landsleiki fyrir Íslands hönd auk þess að spila með öllum yngri landsliðum Íslands.

FH laut um síðustu helgi lægra haldi fyrir Víkingi í bikarúrslitaleik en liðið er í þriðja sæti deildarinnar með 31 stig og er í góðri stöðu til þess að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni þegar liðið á þrjá leiki eftir í deildinni.