Davíð Snorri Jónasson og þjálfarateymi hans hjá íslenska U-21 árs landsliðinu í knattspyrnu karla stilla upp í leikkerfið 3-5-2 í leik liðsins gegn Frakklandi í lokaumferð riðlakeppninnar í lokakeppni Evrópumótsins sem hefst klukkan 16.00 að íslenskum tíma í Györi í Ungverjalandi í dag.

Elías Rafn Ólafsson stendur á milli stanganna hjá Íslandi í stað Patriks Sigurðar Gunnarssonar sem hefur varið markið í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar.

Róbert Orri Þorkelsson, Ari Leifsson og Finnur Tómas Pálmason eru í þriggja manna varnarlínu. Kolbeinn Birgir Finnsson og Valgeir Lunddal Friðriksson eru vængbakverðir.

Kolbeinn Þórðarson, Andri Fannar Baldursson og Mikael Neville Anderson eru inni á miðsvæðinu. Valdimar Þór Ingimundarson og Brynjólfur Andersen Willumsson eru svo í fremstu víglínu.

Ísland á enn möguleika að komast áfram

Þrátt fyrir að íslenska liðið sé stigalaust eftir fyrstu tvo leiki sína, gegn Rússum og Dönum, í riðlakeppninni á liðið enn möguleika að komast í átta liða úrslit keppninnar.

Danir eru á toppi riðilsins fyrir lokaumferðina með sex stig og Rússland og Frakkland hafa þrjú stig hvort lið.

Ísland leikur án fimm leikmanna sem hafa spilað í fyrstu tveimur leikjunum í einvígi við hið sterka lið Frakka. Ísak Óli Ólafsson er meiddur.

Þá voru Ísak Bergmann Jóhannesson, Jón Dagur Þorsteinsson, Willum Þór Willumsson og Sveinn Aron Guðjohnsen, sem hefur skoraði eina mark Íslands í lokakeppninni, voru færðir upp í leikmannahóp A-landsliðsins sem mætir Liechtenstein í undankeppni HM 2022 í Vaduz í kvöld.

Hér má sjá byrjunarlið íslenska liðsins.
Mynd/KSÍ