David Silva, leikmaður Manchester City, vonast til þess að ljúka ferlinum hjá Las Palmas, liðinu sem hann ólst upp hjá þegar samningur hans hjá enska félaginu rennur út. Á hann tvö ár eftir af samningi sínum á Etihad-vellinum.

Silva er einn sigursælasti leikmaðurinn í sögu félagsins og hefur leikið tæplega 350 leiki fyrir félagið frá því að hann gekk til liðs við Manchester City fyrir átta árum síðan.

Er hann þrefaldur Englandsmeistari, bikarmeistari, deildarbikarmeistari ásamt því að hafa verið hluti af landsliðshóp Spánverja sem vann EM tvívegis og HM á sex ára tímabili.

„Ég á von á því að leika hér næstu tvö árin, klára samning minn og svo sé ég til. Það fer eftir heilsu minni, andlegri og líkamlegri en draumurinn hefur alltaf verið að fara heim og leika með Las Palmas.“