Alþjóðaknattspyrnusambandið, FIFA, tilkynnti í gær hvaða einstaklingar kæmu til greina í kosningunni um háttvísisverðlaun ársins. Meðal þeirra tilnefndu eru þeir sem komu að björgun Christian Eriksen fyrr á þessu ári.

Eriksen fór í hjartastopp í leik Danmerkur og Finnlands á Evrópumótinu en snör viðbrögð liðsfélaga og viðbragðsaðila björguðu lífi sóknartengiliðsins.

Liðsfélagar hans mynduðu hring til þess að koma í veg fyrir að sjónvarpsmyndavélarnar gætu fylgst með endurlífgunartilraunum.

Eriksen hefur náð sér og er kominn með gangráð en óvíst er hvort að leikmannaferlinum sé lokið.

Honum er ekki heimilt að leika með gangráð á Ítalíu þar sem hann er samningsbundinn Inter Milan.

Aðrir sem eru tilnefndir eru meðal annars fyrrum skoski landsliðsmaðurinn Scott Brown og ítalski knattspyrnustjórinn Claudio Ranieri.

Brown var tilnefndur eftir að hann sem leikmaður Celtic tók sér tíma til að styðja við bakið á Glen Kamara, leikmanni Rangers í upphitun fyrir leik liðanna, stuttu eftir að Kamara varð fyrir kynþáttafordómum innan vallar.

Kamara varð fyrir kynþáttaníði í leik Rangers og Sparta Prague í leik liðanna í sextán-liða úrslitum Evrópudeildarinnar.

Leikmaðurinn sem beitti Kamara kynþáttaníði, Ondrej Kudela, var dæmdur í tíu leikja bann en tékkneska liðið fór áfram á kostnað West Ham.

Þá var Ranieri sem stýrir liði Watford í dag heiðraður fyrir að hafa skipulagt heiðursvörð sem þáverandi þjálfari Sampdoria fyrir leik liðsins gegn Inter.

Þegar leikurinn fór fram var Inter nýbúið að tryggja sér ítalska meistaratitilinn og fengu þeir heiðursvörð frá andstæðingum sínum fyrir leikinn.