Menntamálaráðherra Danmerkur, Ane Halsboe-Joergensen, segir að þrátt fyrir að hún sé mótfallin hugmyndinni að HM í knattspyrnu karla fari fram í Katar á næsta ári muni danska landsliðið ekki sniðganga keppnina.

Þetta staðfesti hún í samtali við danska fjölmiðilinn TV2.

Danir tryggðu sig inn á HM í gær með 1-0 sigri á Austurríki. Með því eru Danir á leiðinni í lokakeppni HM annað mótið í röð og í sjötta sinn frá upphafi.

Nokkur landslið hafa lýst yfir óánægju sinni með val Alþjóðaknattspyrnusambandsins og hafa félög á borð við Rosenborg og Tromsö í Noregi hvatt knattspyrnusambönd til að sniðganga mótið.

Samkvæmt reglum FIFA geta lið sem komast á HM en ákveða að sniðganga mótið átt von á sekt og jafnvel banni frá næstu keppni en AP greinir frá því að sektin sé að minnsta kosti 250 þúsund svissneskir frankar eða rúmlega 31 milljónir íslenskra króna.