Danielle Victoria Rodriguez var með þrefalda tvennu þegar Stjarnan vann öruggan 78-57 sigur á Haukum í Dominos-deild kvenna í kvöld og fór langleiðina með að tryggja sæti sitt í úrslitakeppninni.

Snæfell getur enn náð Stjörnunni að stigum og er með innbyrðis viðureignina á Garðbæinga en til þess þarf Snæfell að vinna alla þrjá leiki sína og Stjarnan að tapa gegn Val og Blikum.

Garðbæingar náðu strax góðu forskoti í Hafnarfirði í kvöld og leiddu með sautján stigum eftir fyrsta leikhluta. Haukum tókst að halda betur í við Stjörnuna í næstu tveimur leikhlutum en ógnuðu ekki forskoti Stjörnunnar.

Danielle Victoria Rodriguez var með þrefalda tvennu í liði gestanna, sextán stig, þrettán stoðsendingar og ellefu fráköst á meðan Bríet Sif Hinriksdóttir var stigahæst í liði Stjörnunnar.

Hjá Haukum voru Rósa Björk Pétursdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir stigahæstar með ellefu stig hvor.