Knatt­spyrnu­maðurinn Daníel Tristan Guð­john­sen, yngsti sonur Eiðs Smára Guð­john­sen og Ragn­hildar Sveins­dóttur er að finna fjölina á nýjum slóðum hjá sænska meistara­liðinu Mal­mö. Hann spilar með u-19 ára liði fé­lagsins en hefur verið að fá sénsa á æfingum hjá aðal­liðinu þrátt fyrir að vera að­eins 16 ára gamall. Daníel er í ítar­legu við­tali við sænska vef­miðilinn Fot­bollskana­len þar sem hann ræðir lífið í Sví­þjóð, pressuna sem fylgir Guð­john­sen nafninu og fram­tíðar­horfur.

Daníel gekk til liðs við Malmö fyrr á árinu frá Real Madrid og skrifaði undir samning til ársins 2025. Hann er nú þegar farinn að detta inn á æfingar hjá aðalliðinu þrátt fyrir að aðalhlutverk hans núna sé hjá undir 19 ára liðinu.

„Ég frétti af áhuga Malmö þegar að ég var hjá Real Madrid og fann það strax að áhuginn var mjög mikill. Ég tel þetta hafa verið rétta skrefið fyrir mig á þessum tímapunkti ferilsins, ég ákvað á endanum að elta góðu tilfinninguna sem ég hafði fyrir þessu," sagði Daníel Tristan Guðjohnsen í samtali við Fotbollskanalen.

Daníel Tristan hefur nú þegar fengið að spreita sig með aðalliði Malmö og segir það hafa gengið vel. Hann hafi heyrt af því að ánægja ríki með hans framlag.

Hefur staðið undir öllum væntingum

Það er Max Westerberg sem er þjálfari Daníels hjá u-19 ára liði Malmö og hann segir leikmanninn unga búa yfir framúrskarandi fótboltagreind.

„Þetta hefur gengið mjög vel hjá honum," segir Westerberg við Fotbollskanalen. „Samt ekki vonum framar því við gerðum miklar væntingar til hans við komuna. Í hans tilfelli vorum við alveg vissir um hvað við vorum að fá og hann hefur staðið undir öllum okkar væntingum sem við bárum til hans. Hann er góður leikmaður í alla staði.

Karakterinn hans er upp á 100% og færni hans á mjög háu stigi. Mér finnst hann hafa komið inn í kerfið hjá okkur með það ætlunarverk að gerast aðalmaður hjá aðalliðinu. Hann er að gera þetta á mjög markvissan og þroskaðan hátt þrátt fyrir ungaan aldur

Fotbollskanalen bendir réttilega á hversu vel þekkt Guðjohnsen nafnið er í knattspyrnuheiminum. Arnór hafi hans gerði það gott sem atvinnumaður og þá sló faðir hans Eiður Smári Guðjohnsen, einnig í gegn á sínum ferli með liðum á borð við Chelsea og Barcelona.

Þrátt fyrir Guðjohnsen nafnið segist Daníel Tristan ekki hafa fundið fyrir pressu um að gerast atvinnumaður í knattspyrnu líkt og raunin hefur verið hjá afa hans, föður hans og tveimur eldri bræðum hans.

„Pressan kemur aðallega frá fólki sem horfir bara á Guðjohnsen nafnið. Ég reyni bara að spila eins vel og ég get og finn ekki fyrir neinni pressu," segir Daníel Tristan. Hann stefnir á aðallið Malmö.

„Ég er í u19 liðinu núna en vonandi fær maður fleiri sénsa hjá aðalliðinu.