Bardagakappinn Daniel Cormier reyndist smitaður af Covid-19 sex vikum fyrir bardaga sinn gegn Stipe Miocic. Cormier segir í samtali við ESPN að einn æfingarfélagi hans hafi fengið veiruna og allir hafi því farið í skimun. Hans próf var neikvætt en viku síðar fór hann að finna fyrir einkennum. Hann fór í seinna prófið, sem hann fór í 8. júlí og reyndist það jákvætt.

Hann þakkar snjallhring sem hann var með að hann fór í síðara prófið sem kallast Oura hringurinn og sendir gögn í símann. UFC tilkynnti í kjölfarið að allir bardagakappar og konur geta fengið svona hring en þeir kosta um 300 dollara, um 40 þúsund.

Cormier fór svo í fjölmörg próf í aðdraganda bardagans þar sem hann fékk neikvæð svör og bardaginn fór því fram. Þar tapaði Cormier eftirminnilega enda hafði hann slegist við veiruna skömmu áður sem tók sinn toll.

Hann segir í viðtalinu við ESPN að hann hafi tekið eftir því að líkamshitinn hækkaði um nærri tvær gráður og hvíldarpúlsinn hafi farið úr 50 slögum í 70. „Ég skoðaði allar þessar tölur mjög reglulega og það var eitthvað sem sagði mér að það væri ekki allt í lagi svo ég lét skoða mig aftur.“

Hann þurfti því að fara í einangrun og æfði aleinn í bílskúrnum sínum og eyddi fimm þúsund dollurum í allsskonar próf og æfingatæki og tól. Cormier lagði bardagabuxurnar á hilluna eftir tapið og nýtur nú tímans með fjölskyldunni. Hann bætti við að vírusinn hafi ekki haft nein áhrif á sig í bardaganum sem hann tapaði svo eftirminnilega.