Knattspyrnumaðurinn Damir Muminovic sem leikur með Breiðabliki greinir frá því í samtali sínu við Hafliða Breiðfjörð í hlaðvarpsþættinum Miðjunni sem birtist á fotbolta.net í dag að hann og móðir hans hafi orðið fyrir grófu heimilisofbeldi af hendi fyrrverandi kærasta móður hans.

Þar segir Damir að hann hafi ekki þorað að segja neinum frá ofbeldinu sem hann varð fyrst vitni að og fyrir sjálfur þegar hann var 15-16 ára gamall fyrr en hann varð tvítugur. Þá greindi hann bróður mömmu sinnar frá ofbeldinu en hann lenti sjálfur í slagsmálum við ofbeldismanninn á svipuðum tíma. Móðir Damirs lést árið 2017.

„Þetta gekk á í nokkur ár. Ég varð fyrst var við þetta 15-16 ára og þetta var gróft. Kærastinn hennar hefur líka tekið í mig þegar ég var yngri en ég hélt þessu inní mér og þorði ekki að hringja í lögregluna eða segja einhverjum frá þessu," segir Damir í samtalinu.

„Ég vissi ekki hvað maður ætti að gera og hvort ég ætti að segja frá þessu. Ég var hræddur um að ef ég myndi segja frá þessu þá myndi þetta verða verra. Ég var orðinn tvítugur þegar ég sagði fyrst frá þessu þegar ég sagði bróður mömmu frá þessu," segir hann enn fremur.

Á vef lögreglunnar má sjá upplýsingar um viðbrögð við heimilisofbeldi. Þar segir eftirfarandi.

Ekkert barn á að þurfa að þola ofbeldi eða verða vitni að ofbeldi.

Allt ofbeldi á heimili þar sem börn dvelja, er jafnframt ofbeldi gagnvart börnum. Ef þú býrð við slíkar aðstæður eða þekkir eitthvert barn sem býr við slíkar aðstæður þá áttu að hafa samband við 112. Þar getur þú rætt málin við lögreglu í fullum trúnaði.

Samband er haft við barnaverndarnefnd ef ástæða er til. Mikilvægt er að hafa samband þótt þú sért í vafa.

Einnig er hægt að hafa samband við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eða netspjallið 1717.is. 1717 er opið allan sólarhringinn og þar er hægt að ræða við sérþjálfaða ráðgjafa í nafnleynd og fullum trúnaði.