Það var dregið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta í dag. Valur var í pottinum og lenti í B-riðli, þar sem liðið mætir Flensburg, PAUC, Benidorm, Ferencvaros og Ystads. Dagur Sigurðsson, þjálfari japanska landsliðsins, ræddi dráttinn við Fréttablaðið í dag.

„Riðillinn er gríðarlega spennandi. Það eru frábær lið þarna eins og Flensburg, en að mínu mati líka lið sem við eigum að geta keppt við. Svo eru þetta stórkostlegar staðsetningar, spennandi fyrir þá sem vilja fylgja liðinu út,“ segir Dagur.

Dagur með mikla reynslu úr þjálfun, þar á meðal frá Þýskalandi, þar sem hann hefur þjálfað landsliðið og Fuchse Berlin. Hann hefur því oft mætt stórliði Flensburg.

„Það verður gaman að fá Flensburg hingað heim, stór áskorun.“

Dagur hóf feril sinn með Val. Hann telur að liðið geti komist upp úr riðli sínum, en fjögur af sex fara áfram.

„Ég held það sé alveg möguleiki á að skilja tvö lið fyrir aftan sig. Það fer svolítið eftir því hvernig leikirnir hittast á, hvernig er standið á liðinu, eru 2-3 í meiðslum þegar þessir lykilleikir koma. Það verður álag á Valsliðinu þessa mánuði sem þeir spila.“

Tvö Íslendingalið eru í riðlinum fyrir utan Val. Teitur Örn Einarsson leikur með Flensburg og Kristján Örn Kristjánsson leikur með PAUC. „Það er frábært að fá þá. Það trekkir líka áhorfendur að.“

„Það er til fyrirmyndar að klúbburinn sé að bakka liðið vel upp í að taka þátt. Þetta verður fjárhaslega dýrt og nú eru allir að leggjast á eitt að taka þátt,“ segir Dagur Sigurðsson.