Þjálfara­mál ís­lenska karla­lands­liðsins í hand­bolta hafa verið mikið í um­ræðunni undan­farna daga eftir að ljóst varð að liðið væri úr leik á HM í hand­bolta eftir að hafa mis­tekist að komast upp úr milli­riðlum mótsins.

Ís­lenska lands­liðið endar í 12. sæti á HM og telja margir að Guð­mundur Guð­munds­son, lands­liðs­þjálfari sé kominn á enda­stöð með liðið.

Þjálfara­málin voru rædd í HM stofunni á RÚV eftir síðasta leik Ís­lands á HM, gegn Brasilíu á sunnu­daginn, þar sem sér­fræðingurinn og hand­bolta­þjálfarinn reyndi, Dagur Sigurðs­son tjáði sig um stöðu mála.

Í um­ræðum um spila­mennsku ís­lenska lands­liðsins á HM var Dagur ó­sam­mála mati Guð­mundar á spila­mennsku Ís­lands á HM.

„Ég er ekki sam­mála Guð­mundi með það, hann er á­gætis fé­lagi minn og allt það. Hann er búinn að vera að segja að liðið sé að spila stór­kost­lega. Það er bara ekki alveg rétt. Ég er ekki til­búinn að kvitta upp á að þetta séu bara ein­hverjar 15 mínútur á móti Ung­verjum en að annars hafi mótið bara heilt yfir verið gott.

Ég held að allir þjálfarar sem eru látnir fara, séu látnir fara af því að liðið klikkaði á of mörgum dauða­færum og mark­vörðurinn hjá mót­herjunum varði of marga bolta. Það eru engar aðrar á­stæður í hand­bolta til að láta þjálfara fara heldur en þessa.

Dagur er nú þjálfari japanska karla­lands­liðsins og er með samning við liðið í eitt ár til við­bótar. Kristjana Arnars­dóttir, um­sjónar­kona HM stofunnar á RÚV spurði hann í beinni út­sendingu hvort hann hefði á­huga á því að taka við ís­lenska lands­liðinu.

„Ég er held ég bara í sömu stöðu og Guð­mundur. Ég hef ekki verið að ná þeim árangri sem ætlast er til af mér og feginn að halda mínu djobbi ef ég get það fram yfir Ólympíu­leika.“