Um helgina fór fram alþjóðlegt FIS mót í skíðagöngu í Östersund, Svíþjóð. Tveir landsliðsmenn voru meðal þátttakenda, Albert Jónsson og Dagur Benediktsson. Á laugardag var keppt í 1,4 km C sprettgöngu og á sunnudag í 15 km F göngu.

Dagur Bendiktsson átti virkilega flottar göngur og bætti sig í báðum greinum. Í sprettgöngunni á laugardag var hann í 54.sæti og fékk 158.60 FIS stig en á heimslista er hann með 167.39 FIS stig. Í 15 km göngunni á sunnudag var hann í 64.sæti og fékk 118.95 FIS stig en á heimslista í lengri vegalengdum er hann með 124.52 FIS stig.

Albert Jónsson var aðeins frá sinni heimslistastöðu en hann endaði í 82.sæti í sprettgöngunni og 76.sæti í 15 km göngunni.

Tour de Ski mótaröðin kláraðist svo í gær með 10 km göngu í Val di Fiemme. Snorri Einarsson var á meðal keppenda á á mótaröðinni. Lokakeppnin var hin fræga "final climb" eða síðasta klifrið en sú keppni er alls 10 km að lengd og síðustu 3,5 km eru upp skíðabrekku með mestum halla yfir 40% og alls er hækkunin 420 metrar.

Notast var við frjálsa aðferð og hópræsingu og hóf Snorri leik nr. 43. Í byrjun voru nánast allir keppendur í þéttum hóp en þegar komið var í klifrið fór aðeins að skilja á milli manna.

Snorri náði virkilega góðri göngu og sérstaklega var hann flottur í klifrinu og að lokum endaði hann í 30.sæti og náði því að vinna sig upp um 13 sæti í keppni dagsins. Voru þetta bestu úrslit Snorra í mótaröðinni. Í heildarkeppninni endaði Snorri í 41.sæti af alls 84 keppendum sem tóku þátt í mótaröðinni.