Dagný Brynjarsdóttir, leikmaður íslenska landsliðs, segist eiga von á því að tékkneska liðið mæti því íslenska af hörku annað kvöld en segir þrjú stig nauðsynleg fyrir áform Íslands um að komast á HM.

Dagný sat fyrir spurningum blaðamanna í dag í aðdraganda leiksins annað kvöld.

„Þær eru með gott lið sem mæta inn í leikina af hörku en við vitum að við þurfum þrjú stig í þessum leik. Tékkarnir eru með fjögur stig eftir tvo leiki, við erum án stiga eftir fyrsta leik. Fyrir vikið skiptir þetta gríðarlegu máli ef við ætlum okkur efsta sæti riðilsins,“ sagði Dagný, aðspurð út í mikilvægi leiksins og leikstíl tékkneska liðsins.

Hún segir að leikmannahópurinn sé ákveðinn í að komast á HM í fyrsta sinn.

„Okkur langar að komast í fyrsta sinn,“ segir Dagný og bætti við að það hefði ekki munað miklu í síðustu undankeppni.

„Árangur karlalandsliðsins, þegar þeir komust á HM, er hvatning fyrir okkur, að sjá stemminguna sem myndaðist í tengslum við það.“