„Fótbolti snýst svolítið um heppni og þetta gat fallið með okkur. Manni líður eins og við höfum tapað þótt að við höfum ekki tapað, af því að þetta var svolítið stöngin út. Við vorum yfir stærstan hluta leiksins en missum það niður í jafntefli,“ segir Dagný Brynjarsdóttir, miðjumaður íslenska kvennalandsliðsins þegar hún var spurð út í úrslitin úr síðustu leikjum og það litla sem þurfti upp á til að Ísland myndi vinna leikina.

„Eins og staðan er erum við í öðru sæti riðilsins og með þetta í okkar höndum, en leikurinn gegn Frökkum verður erfiður. Það er allt hægt í fótbolta og við ætlum að gera okkar besta í að ná eins mörg stig og við getum.“

Aðspurð hvað íslenska liðið gat gert betur gegn Ítölum vildi Dagný helst sjá meiri yfirvegun hjá liðinu með boltann.

„Ég er búin að horfa á leikinn aftur og það sem ég hefði helst viljað að við myndum gera betur, sérstaklega í seinni hálfleik, væri að fá meiri yfirvegun. Það gekk illa að tengja sendingar saman og við vorum halda boltanum illa innan liðsins þótt að svæðið væri til staðar.“

Dagný tekur undir að það séu bæði kostir og gallar við að mæta franska liðinu sem hefur að engu að keppa eftir að hafa tryggt sér sigur í riðlinum.

„Það er aðeins erfiðara að lesa í hvað það ætli að gera því þær gætu gert ellefu breytingar. Ég held að þær séu með það stóran hóp að það skiptir kannski ekki öllu máli. Þær eru með 23 leikmenn í toppliðum. Við þurfum bara að hugsa um okkur og gera okkar.“

Það styttri tími milli leikja núna en áður.

„Ég veit ekki hvort að það sé betra eða verra. Það getur verið gott að fá lengri tíma til hvíldar, til að safna orku. Á sama tíma, eftir tvo jafnteflisleiki í röð vill maður komast í næsta leik til að vinna hann.“

Búið er að gefa út veðurviðvörun vegna hitastigsins í Englandi á mánudag en Dagný segir að það sé krefjandi að spila í slíkum aðstæðum.

„Ég bjó á Flórída í 3 1/2 ár þar sem hitastigið var oft mjög hátt. Var orðin vön þessu þá, en það tekur líkamann tíma að venjast þessu. Við erum ekki vanar þessu, fyrir utan Gunnhildi,“ segir Dagný, aðspurð hvort að hún hafi spilað í slíkum aðstæðum og heldur áfram:

„Fyrst og fremst skiptir máli að við náum að drekka vökva og vera klókar. Við þurfum að nota öll tækifæri til að hvílast og það hlýtur að vera vatnspása. Ef við þurfum að liggja lengur í grasinu til að fá vatn hjá sjúkraþjálfaranum eða eitthvað. Nota allt til að kæla sig niður,“ segir Dagný, aðspurð hvað væri hægt að gera við hitanum.