Jón Þór Hauksson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hefur þurft að gera tvær breytingar á hópi liðsins fyrir leikina gegn Slóvakíu og Ungverjalandi i undankeppni EM 2022.

Dagný Brynjarsdóttir getur ekki tekið þátt vegna meiðsla og Sandra María Jessen er í sóttkví þar sem smit hefur komið upp hjá félagsliði hennar, Bayer Leverkusen.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá KSÍ þar sem fram kemur að allir leikmenn Bayer Leverkusen hafi verið settir í sóttkví, en Sandra María hefur ekki greinst smituð.

Inn í hópinn koma þær Kristín Dís Árnadóttir, Breiðablik, og Bryndís Arna Níelsdóttir, Fylki. Ísland mætir Slóvakíu 26. nóvember og Ungverjalandi 1. desember, en báðir leikirnir fara fram ytra.