Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu mörk Íslands í 2-0 sigri á Finnlandi í seinni æfingarleik liðanna á stuttum tíma.

Liðin mættust tveimur æfingarleikjum í Finnlandi í þessu landsleikjahléi og tókst Íslandi að halda hreinu í báðum leikjum.

Eftir markalaust jafntefli á dögunum gerði Jón Þór Hauksson fimm breytingar á liði Íslands. Hlín tók sæti Fanndísar Friðriksdóttur og skoraði fyrsta mark leiksins snemma leiksins.

Þá féll boltinn fyrir fætur hennar við vítateigsbogann og skoraði hún með góðu skoti í fjærhornið.

Stuttu síðar var komið að Dagnýju að skora fyrsta landsliðsmark sitt í 21 mánuð. Dagný fékk þá góða sendingu inn fyrir vörn finnska liðsins og afgreiddi boltann snyrtilega.

Var þetta 23. mark hennar fyrir landsliðið og er hún nú jöfn Ásthildi Helgadóttir í 3. sæti yfir flest mörk fyrir kvennalandsliðið.