Dagný Lísa Davíðsdóttir og liðsfélagar hennar hjá Wyoming Cowgirls féllu í nótt úr leik í úrslitakeppni háskólakörfuboltans, marsfárinu (March Madness), þegar liðið liðið laut í lægra haldi fyrir UCLA Bruins.
Fyrir þennan leik hafði Wyoming Cowgirls haft betur í sex leikjum í röð. Dagný Lísa skoraði fimm stig í leiknum, tók þrjú fráköst, gaf eina stoðsendingu, varði eitt skot og stal einum bolta.
Dagný Lísa hélt sautján ára út í nám í Bandaríkjunum og var hluti af meistaraliði Wyoming á lokatímabili sínu í háskólakörfuboltanum.
Með því að taka þátt í þessum leik varð ´hun önnur íslenska konan og fjórði Íslendingurinn frá upphafi eftir því sem Fréttablaðið kemst næst til að taka þátt í úrslitakeppni bandaríska háskólakörfuboltans. Þar á undan höfðu Helena Sverrisdóttir, Jón Axel Guðmundsson og Fran Aaron Booker gert það.
Lið Dagnýjar, Wyoming Cowgirls, var að spila í marsfárinu í annað sinn í sögunni. Þessi 24 ára gamli Hvergerðingur hefur verið í námi í Bandaríkjunum í tæp sjö ár og leikið körfubolta samhliða náminu.