Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins, sagði í samtali við Fréttablaðið í dag að Dagný Brynjarsdóttir hefði haft samband og tilkynnt að hún gæti ekki gefið kost á sér fyrir næsta verkefni landsliðsins.

Eignaðist Dagný fyrsta barn sitt í júní síðastliðnum og sagði hún í samtali við Fréttablaðið vera með augastað á leikjunum í september.

Freyr greindi frá því á blaðamannafundinum í dag að hún hafi reynt sitt besta en tíminn hefði ekki verið nægur. 

„Hún reyndi sitt allra besta og fór strax að æfa eftir fæðinguna en það voru gömuð meiðsli sem tóku sig upp á ný og hún nær ekki leiknum.“

Dagný fékk góðan stuðning frá KSÍ.

„Við reyndum að styðja við hana án þess að setja neina pressu á hana en hún hringdi um daginn og tilkynnti mér að þetta myndi ekki nást,“ sagði Freyr og hélt áfram:

„Hún er auðvitað líka berjast við að komast í stand til að komast aftur út í atvinnumennsku. Hún þarf að vera heil heilsu ef hún ætlar að fá samning úti.“

Búið er að setja nýtt markmið að Dagný verði klár ef Ísland fari í umspil.

„Núna er hún með það að markmiði að vera klár í slaginn ef við förum í umspil í haust.“