Annað árið í röð stóð Dagbjartur Daði Jónsson, spjótkastari úr ÍR, uppi sem sigurvegari í svæðismóti SEC-deildarinnar í frjálsum íþróttum með kasti upp á 76,39 en það er þremur metrum frá hans besta kasti.

Með því varð hann annar spjótkastarinn í sögu Missisippi State til að sigra keppnina í SEC-deildinni tvö ár í röð á eftir Anderson Peters sem náði því árið 2018-19.

Dagbjartur er í einum sterkasta háskóla Bandaríkjanna þegar kemur að spjótkasti en Peters varð heimsmeistari í greininni haustið 2019.

Íslendingurinn var með besta kast ársins í aðdraganda meistaramóts bandaríska háskólaíþrótta (e. NCAA) í frjálsum íþróttum utanhúss í fyrra en náði ekki að fylgja því eftir þegar komið var í meistaramótið sjálft.

Meistaramótið fer fram í byrjun júní. Í ár eru 21 á frá því að Þórey Edda Elísdóttir varð síðasti Íslendingurinn til að vinna til gullverðlauna í frjálsum íþróttum í meistaramóti NCAA.