Kólumbíski hjólreiðamaðurinn Nairo Quintana hefur verið dæmdur úr leik í Tour de France hjólreiðakeppninni eftir að leifar af lyfinu tramadol fundust í tveimur mismunandi blóðsýnum sem voru tekin úr honum. Tour de France keppninni er lokið og Nairo hafði lokið leik þar í 6. sæti.

Þau úrslit hafa nú verið gerð ógild enda með öllu bannað að innbyrða efni sem eru á lista keppnisstjórnar yfir ólögleg efni.

Nairo hefur nú tíu daga frest til þess að áfrýja úrskurði keppnisstjórnar en þar sem um fyrsta brot hans er að ræða verður hann ekki settur í keppnisbann.

Noktun tramadols er ólögleg samkvæmt keppnisreglum vegna aukaverkana lyfsins sem fela í sér svima, syfju sem og mögulegum skort á athygli. Slíkar aukaverkanir geta verið varhugaverðar og í sumum tilvikum hættulegar í hjólreiðakeppni á borð við Tour de France.