Körfuboltastjarnan Steph Curry og íþróttavöruframleiðandinn Under Armour eru að leggja lokahönd á lífstíðarsamning við Curry sem tryggir honum milljarð Bandaríkjadala.

Curry sem vann sinn fjórða meistaratitil sem hluti af liði Golden State Warriors á dögunum, greindi frá þessu í samtali við Rolling Stone.

Skotbakvörðurinn sem hefur verið eitt þekktasta nafn Under Armour undanfarin níu ár á tvö ár eftir af samningi sínum við íþróttavöruframleiðandann. Curry lék áður fyrr í skóm frá Nike áður en hann skipti og fær hann 215 milljónir dala fyrir núverandi samning.

Um tíma virtist Curry vera ákveðinn í að stökkva frá borði eftir að hafa átt í útistöðum við eiganda Kevin Plank, Under Armour, meðal annars þegar kom að stuðningi Plank við forsetaframboð Donalds Trump.

Með því fetar Curry í fótspor Michael Jordan, LeBron James og Cristiano Ronaldo hjá Nike og Lionel Messi hjá Adidas sem eru allir með lífstíðarsamninga við íþróttavöruframleiðendurna.