Stephen Curry lék fyrsta hringinn á Ellie Mae Classic mótinu í golfi á einu höggi yfir pari. Mótið er hluti af Web.com mótaröðinni.

Curry er ekki bara einn besti körfuboltamaður í heimi heldur einnig liðtækur kylfingur. 

Þetta er annað árið í röð sem Curry tekur þátt á Ellie Mae Classic. Í fyrra komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn.

Curry fékk þrjá fugla á hringnum í gær og fjóra skolla. Hann er í 106.-121. sæti og á enn ágæta möguleika á að komast í gegnum niðurskurðinn.

Curry leikur með Golden State Warriors og hefur þrisvar sinnum orðið NBA-meistari með liðinu. Hann hefur í tvígang verið valinn verðmætasti leikmaður NBA-deildarinnar.