Max Meyer skrifaði í gærkvöld undir samning hjá Crystal Palace og kemur þessi fyrrum landsliðsmaður Þýskalands til félagsins á frjálsri sölu.

Miklar væntingar voru gerðar til Meyer á sínum tíma er hann lék fyrstu leiki sína fyrir Schalke átján ára gamall. Var hann strax kominn í lykilhlutverk og var titlaður hinn þýski Messi.

Lenti hann í útistöðum við forráðamenn Schalke í vor þegar samningsviðræður gengu illa og yfirgaf hann uppeldisfélag sitt í sumar. Var hann með háar launakröfur sem fældu félög á borð við Arsenal sem höfðu lengi haft hann undir smásjá í burtu.

Skrifaði hann undir þriggja ára samning hjá Crystal Palace og mun hann leysa Yohan Cabaye af hólmi.