Lárus Orri Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður í fótbolta er kominn með nóg af harmakveini Arnars Þórs Viðarssonar, þjálfara íslenska landsliðsins.

Arn­ar Þór ræddi þann storm sem hefur geisað um íslenska liðið í belgískum sjónvarpsþætti í vikunni. „Síðustu vikur hafa verið þær erfiðustu á fótboltaferlinum og ég er mjög andlega þreyttur,“ sagði Arn­ar Þór meðal annars.

„Staðan er allt önnur en þegar ég tók við liðinu í dsesember. Það voru tveir leikmenn að spila í síðasta glugga af sterkasta liðinu sem ég hafði í huga á þeim tímapunkt, formaður­inn er hættur og stjórn­in búin að segja af sér.

Þegar ég leita ráða hjá yfirmanni knattspyrnumála þarf ég svo að ræða við sjálfan mig,. Ég þarf að ráðfæra mig við yf­ir­mann knatt­spyrnu­mála, sem er ég sjálf­ur,“ segir Arnar Þór enn fremur.

„Það eru leikmenn sem liggja undir grun um kynferðis- og ofbeldisbrot og ég gat ekki valið þá. Ef að ástandið helst óbreytt er hætt við því að félagar þeirra í liðinu leggi landsliðsskóna á hilluna. Ég get ekk­i tjáð mig um mál Gylfa Þórs Sigurðsssonar en það gefur augaleið að ég sakna Kevin De Bruyne eða Eden Haz­ard Íslands.

Þeir leikmenn sem voru hetj­ur íslensku þjóðarinnar fyr­ir eru nú út­málaðar sem hræðileg­ar mann­eskj­ur. Ég fékk einnig minn skerf af gagnrýni fyrir það hvernig ég tjáði mig um málin og við vorum kallaðir nauðgarar þrátt fyrir að vera alsaklausir af slíku," segir landsliðsþjálfarinn.

Lárus Orri tjáði sig um þetta viðtal á twitter-síðu sinni. „Cry me a river. Erfið staða og erfitt verkefni? Ekki spurning, en er þetta ekki orðið fínt af þessum grátkór hjá landsliðsþjálfaranum/yfirmanni knattspyrnumála. Svona er staðan í dag deal with it and get on with the job," segir fyrrverandi atvinnumaðurinn.

Lárus Orri Sigurðsson finnst nóg komið af grátkór landsliðsþjálfarans.
Fréttablaðið/Getty