Mike Craion, miðherjinn sterki, er búinn að semja við Keflavík á ný en hann staðfesti þetta í samtali við Karfan.is í kvöld.

Craion lék í fjögur ár á Íslandi á sínum tíma, tvö ár með Keflavík og tvö ár með KR þar sem hann varð Íslandsmeistari tvö ár í röð.

Var hann einn besti leikmaður deildarinnar með 22 stig og ellefu fráköst að meðaltali sem skilaði honum tækifæri í atvinnumennsku.

Hélt hann til Frakklands þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö ár en það er ljóst að þetta er gríðarlegur liðsstyrkur fyrir Keflavík fyrir komandi tímabil í Dominos-deild karla.