Tilkynnt verður í hádeginu í dag hver mun stýra íslenska karlalandsliðinu í körfubolta næstu misserin en KKÍ hefur þá boðað til blaðamannafundar þar sem sá aðili verður kynntur.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Kanadamaðurinn Craig Pedersen halda áfram sem þjálfari íslenska liðsins.

Craig tók við liðinu árið 2014 og hefur á þeim tíma sem hann hefur verið við stjórnvölinn farið tvisvar með liðið á EuroBasket. Fyrst árið 2015 og svo aftur árið 2017.

Finnur Freyr Stefánsson þjálfari danska liðsins Horsens og Baldur Þór Ragnarson sem stýrir Tindastóli hafa verið í þjálfarateymi Craig undanfarið og spurning hvort að þeir muni halda áfram í því hlutverki.