Stjarnan og Haukar eiga flesta fulltrúa í karlalandsliðinu í körfubolta sem mætir Kósovó og Slóvakíu í undankeppni HM 2023 í körfubolta á næstu dögum.

Leikmannahópurinn er með breyttu sniði þar sem margir af reynslumestu leikmönnum liðsins geta ekki gefið kost á sér.

Elvar Már Friðriksson og Haukur Helgi Pálsson geta ekki gefið kost á sér vegna meiðsla og þá er Martin Hermannsson upptekinn í leikjum með Alba Berlin á sama tíma. Grindvíkingurinn Jón Axel Guðmundsson á miðju tímabili með Davidson Wildcats og kemur því ekki til greina.

Tryggvi Snær Hlinason, leikmaður Zaragoza á Spáni, verður því eini atvinnumaðurinn í hóp íslenska liðsins.

Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur, er leikjahæstur í íslenska hópnum með 82 leiki. Næstir koma þeir Pavel Ermolinskij (73) og Ægir Þór Steinarsson (61).

Stjarnan er með þrjá fulltrúa í liðinu, Ægi Þór Steinarsson, Tómas Þórð Hilmarsson og Gunnar Ólafsson líkt og Haukar sem verða með Breka Gylfason, Hjálmar Stefánsson og Kára Jónsson í hópnum.

Enginn leikmaður úr KR er valinn að þessu sinni en Kristófer Acox gat ekki gefið kost á sér vegna meiðsla en hópinn í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.

Nafn · Félag · Landsleikir

Breki Gylfason · Haukar · 6

Gunnar Ólafsson · Stjarnan · 18

Hjálmar Stefánsson · Haukar · 15

Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík · 82

Kári Jónsson · Haukar · 10

Kristinn Pálsson · Njarðvík · 13

Pavel Ermolinskij · Valur · 73

Pétur Rúnar Birgisson · Tindastóll · 9

S. Arnar Björnsson · Grindavík · 8

Tómas Þórður Hilmarsson · Stjarnan · 4

Tryggvi Snær Hlinason · Basket Zaragoza · 37

Ægir Þór Steinarsson · Stjarnan · 61