Heims­meistara­mótinu í fim­leikum seinkaði um rúman klukku­tíma í dag í kjöl­far þess að keppandi greindist með Co­vid-19. Keppandinn hafði keppt fyrr um daginn og því þurfti að sótt­hreinsa öll á­höld.

Hópur ís­lenskra kepp­enda tók þátt í mótinu sem haldið er í Japan. Heppi­lega voru allir ís­lenskir kepp­endur búnir að keppa áður en sá smitaði steig á svið. Vegna smitsins þurfti að stöðva mótið og sótt­hreinsa öll á­höld sem olli því að mótinu seinkaði um rúman klukku­tíma og allt magnesíum var þrifið af, eftir­standandi kepp­endum til ama.

Sein­kunin ruglaði i upp­hitun þeirra kepp­enda sem áttu eftir að stíga á stokk og voru jafn­vel búnir að hita upp. Þá þýddi skortur á magnesíum að á­höldin voru sleipari en það sem í­þrótta­fólkið er vant.

Írski fim­leika­maðurinn Rhys McC­lenag­han var einn þeirra sem átti eftir að keppa þegar truflunin átti sér stað. Hann rann til seint í rútínunni sinni á boga­hestinum og kennir að­gerðirnar um slysið. Hann komst ekki inn í úr­slita­keppnina.

Fréttablaðið/Getty

McC­lenag­han skrifar á Twitter síðu sinni að honum þyki leiðin­legt að öll æfingin hans hafi orðið fyrir bí þegar hann er á heims­meistara­mótinu látinn bíða í níu­tíu mínútur og allt kalk þrifið af á­haldinu. „Tími til að fara heim og vona að það sé ekki annað HM eins og þetta,“ skrifar hann.

Sam­kvæmt heimildum Frétta­blaðsins er mikil var­kárni í kringum kepp­endur á heims­meistara­mótinu í Japan. Ís­lenski hópurinn fær einungis að vera inn á hóteli eða á leik­vanginum og fer á milli í sér­merktum leigu­bíl. Þau fái ekki að fara í göngu­túra eða út í búð á meðan á ferðinni stendur.

Fréttablaðið/Getty