Virði 20 verðmætustu knattspyrnufélaga heims hefur hækkað um 2,28 milljarða dollara eða um 30 prósent að meðaltali síðustu tvö árin, en fjárfestar hafa áhuga á auknu aðdráttarafli íþróttarinnar. Þrátt fyrir fjárhagsvandræði Barcelona er félagið í fyrsta skipti í efsta sæti á lista Forbes yfir 20 verðmætustu félög heims.

„Þarna sjáum við hve sterkur alþjóðlegur vöxtur íþróttarinnar er. Samkvæmt þessu ættu fjárfestar ekki að hafa misst trú á því að hagnast á því að eiga félögin þrátt fyrir tímabundna fjárhagserfiðleika vegna kórónaveirufaraldursins, sem er afar áhugavert þar sem fjárhagslegt högg félaganna vegna veirunnar hefur verið umtalsvert,“ segir Björn Berg Gunnarsson, sérfræðingur um fjármál í íþróttum.

„Hagnaðarmöguleikar hafa aukist undanfarin ár, einkum hjá stærstu félögunum í vinsælustu deildunum og áhugavert hefur verið að fylgjast með áhrifum alþjóðlegra fjárfesta, einkum bandarískra, sem hafa verið að kaupa evrópsk knattspyrnufélög í gegnum fjárfestingafélög sín.

Það má til að mynda sjá á auknu verðmæti Liverpool að þarna er talið að vel hafi tekist til. Bandarískir fjárfestar eru mjög hagnaðardrifnir og fjárfesta í auknum mæli í knattspyrnufélögum, jafnvel víða um heim, vegna þess að þar sjá þeir tækifæri

„Það má líka lesa úr þessum lista að líklegt sé að elítufélögin í Evrópu séu að skera sig enn frekar frá restinni hvað verðmæti varðar. Þá er fjöldi liða úr ensku úrvalsdeildinni í topp 20 á þessum lista, sem er skýrt merki þess hversu vel hefur gengið að búa til verðmætt vörumerki í þeirri deild.Það sætir líka tíðindum að Juv­entus sé ekki á topp tíu og ítölsku liðin halda áfram að dragast aftur úr,“ segir hann, en ensk félög eru í níu af 20 efstu sætunum á listanum.

Barcelona er metið á 4,76 milljarða dala en erkifjandi Katalóníufélagsins, Real Madrid, kemur þar rétt á eftir, metið á 4,75 milljarða dala. Madrídarfélagið hefur verið í toppsæti listans fimm af síðustu 16 árum. Manchester United sem hefur trónað á toppi listans hin 11 árin af síðustu 16 árum er komið niður í fjórða sæti og Bayern München er í þriðja sæti.

Fjárfestar virðast sjá færi á að hagnast á því að eiga hlut í knattspyrnufélögum þrátt fyrir tekjumissi vegna kórónaveirufaraldursins síðasta árið rúmt.

Meðaltekjur félaganna 20 voru 441 milljón dala tímabilið 2019 til 2020, 9,6 prósentum minna en leiktíðina þar áður. Á sama tíma minnkuðu rekstrartekjur félaganna um 70 prósent.Virði Liverpool hefur hækkað um 88 prósent síðan fyrir tveimur árum og félagið er komið upp í fimmta sæti listans.

Liverpool, sem er með 84 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlunum Facebook, Twitter og Instagram er 12. verðmætasta íþróttafélag í heimi.Barcelona og Real Madrid sem eru í fjórða og fimmta sæti á fyrrgreindum lista hafa 260 milljónir fylgjenda hvort á téðum samfélagsmiðlum.

NFL-liðið Dallas Cowboys, sem er metið á 5,7 milljarða dala, hefur til samanburðar 16 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum.Manchester United, sem er með tæplega 140 milljónir fylgjenda á samfélagsmiðlum, gerði nýverið auglýsingasamning við þýska hugbúnaðarfyrirtækið TeamViewer en sá samningur mun færa félaginu 64.9 milljónir dala á ári á fimm ára samningstímanum.

Sala á vörum merktum félögunum er tekjulind sem fjárfestar líta til. Síðasta sumar undirrituðu franska félagið PSG og íþróttavörukeðjan Fanatics samning um sölu á vörum merktum félaginu, sem talið er að muni þrefalda rafræn viðskipti á vörunum.Þá er áætlað að sala á vörum merktum PSG muni skila félaginu 40 milljónum dala árið 2023 og skömmu síðar muni árleg sala verða í kringum 60 milljónir dala.

Real Madrid fær áfram mest í sinn hlut í gegnum auglýsingar, styrktarsamninga og treyjusölu. Tímabilið 2019 til 2020 fékk félagið 424 milljónir dala í gegnum áðurnefnda tekjuliði en það er 55 prósenta hækkun frá því fyrir fimm árum síðan. Skiptir þar mestu að treyju- og búnaðarsamningur Real Madrid við Adidas er sá hæsti hjá nokkru íþróttafélagi í heiminum.