Barcelona og Bayern komust í dag að samkomulagi um að Philippe Coutinho myndi ganga til liðs við þýska félagið á eins árs lánssamning.

Coutinho tilkynnti forráðamönnum Barcelona að hann hefði ekki áhuga á að fara til PSG sem hluti greiðslunnar fyrir Neymar.

Þýskir og spænskir fjölmiðlar fullyrða að Coutinho ferðist til Þýskalands á morgun og hefji viðræður við Bayern.

Brasilíski landsliðsmaðurinn er ekki í leikmannahóp Barcelona í kvöld í fyrstu umferð spænsku deildarinnar gegn Athletic Bilbao.

Coutinho lék 75 leiki fyrir Barcelona og skoraði í þeim 21 mark en tókst aldrei að vinna hug og hjörtu stuðningsmanna Barcelona eftir að félagið keypti hann á 142 milljónir evra frá Liverpool.