Thibaut Courtois er orðinn leikmaður Evrópumeistara Real Madrid. Hann stóðst læknisskoðun í dag og skrifaði í kjölfarið undir sex ára samning við félagið.

Hinn 26 ára gamli Courtois átti eitt ár eftir af samningi sínum við Chelsea. Talið er að Real Madrid hafi borgað rúmar 30 milljónir punda fyrir belgíska landsliðsmarkvörðinn. Þá fékk Chelsea Króatann Mateo Kovacic á láni frá Real Madrid.

Courtois gekk í raðir Chelsea frá Genk 2011 en var strax lánaður til Atlético Madrid. Hann varð Spánarmeistari með liðinu 2014 en var svo kallaður aftur til Chelsea.

Courtois varð tvisvar sinnum Englandsmeistari með Chelsea og einu sinni bikarmeistari.

Til að fylla hans skarð keypti Chelsea spænska markvörðinn Kepa Arrizabalaga fyrir metverð.