Chelsea og Real Madrid hafa komist að samkomulagi um sölu enska félagsins á belgíska landsliðsmarkverðinum Thibaut Courtois til spænska stórveldisins. Þetta kemur fram i frétt á heimasíðu Chelsea. 

Courtois á hins vegar eftir að semja um kaup og kjör við forráðamenn Real Madrid og gangast undir læknisskoðun hjá félaginu. Það verður líklega gert áður en langt um líður. 

Hluti af kaupverðinu á Courtois verður eins árs lánssamningur króatíska landsliðsmannsins Mateo Kovacic til Chelsea. 

Kovacic sem leikur alla jafna sem sóknartengilður hefur átt erfitt með að festa sig í sessi hjá Madrídarliðinu og freistar þess að fá meiri spiltíma undir stjórn  Maurizio Sarri hjá enska liðinu.