Antonio Conte, knattspyrnustjóri Tottenham Hotspur, mætir í kvöld á sinn gamla heimavöll, Stamford Bridge, í fyrsta skipti síðan hann var rekinn úr starfi hjá Chelsea árið 2018. Liðin eigast þá við í fyrri leik sínum í undanúrslitum enska deildarbikarsins.

Conte á blendnar tilfinningar eftir tíma sinn hjá Chelsea en hann tók við liðinu sumarið 2016 og gerði liðið að enskum meistara á sínu fyrsta tímabili við stjórnvölinn. Liðið sett met undir stjórn Conte með því að vinna 30 leiki af 38 mögulegum í ensku úrvalsdeildinni þá leiktíðina.

Raunar hófst stjórnartíð Conte hjá Chelsea ekkert frábærlega en liðið fór höktandi af stað í leikkerfinu 1-4-1-4-1 og 1-4-2-3-1 og eftir 3-0-tap gegn Arsenal skipti Ítalinn skapheiti yfir í leikkerfið 1-3-4-3 sem svínvirkaði.

Chelsea fór á 13 leikja sigurgöngu í deildinni og leit aldrei um öxl eftir það.

Cesar Azpilicueta, Gary Cahill og David Luiz og mynduðu þriggja manna varnarlínu og Marcos Alonso og óvæntur Victor Moses blómstruðu sem vængbakverðir.

N'Golo Kante og Nemanja Matic vernduðu varnarlínuna og gáfu sóknarþríeykinu Eden Hazard, Pedro og Diego Costa frelsi til þess að njóta sín í sóknarleiknum.

Vandræðin hófust sumarið 2017

Titilvörn Conte gekk ekki vil tímabilið eftir og sigur í ensku bikarkeppninni vorið 2018 var ekki nóg til þess að Conte héldi starfi sínu.

Conte var ekki sáttur við að Chelsea keypti Álvaro Morata en hann vildi frekar fá Romelu Lukaku, þáverandi leikmann Everton eða Harry Kane, sem hann stýrir nú hjá Tottenham Hotspur.

Knattpsyrnustjóinn sýndi það í verki hversu mikið hann var á móti kaupunum á Morata með því að stilla Jeremie Boga, tvítugum leikmanni úr akademíu félagsins, upp í byrjunarliði í fyrsta leik liðsins í ensku úrvalsdeildinni haustið 2017 gegn Burnley í stað spænska framherjans.

Antonio Rüdiger gekk til liðs við Chelsea sumarið 2017 en Conte var með Virgil van Dijk ofar á óskalistanum og þá hafði hann augastað á Alex Oxlade-Chamberlain sem fór til Liverpool frá Arsenal og Kyle Walker sem var seldur til Manchester City frá Tottenham Hotspur. 

Þá var Conte ekki á þeim buxunum að bæta Danny Drinkwater, Davide Zappacosta og Tiemoue Bakayoko við leikmannahóp sinn.

Conte þótti fara fram úr sér í Costa-málinu

Stjórn Chelsea var svo ekki sátt við hvernig Conte höndlaði mál Diego Costa en brasilíski framherjinn lét sig hverfa til heimalands síns og var ekki með í fyrstu leikjum liðsins haustið 2017.

Conte sendi Costa sms-skilaboð þar sem hann tjáði honum að krafta hans væri ekki óskað lengur hjá félaginu. Costa hótaði málskókn þar sem hann taldi sig hafa verið meðhöndlaðan eins og glæpamaður.

Costa og Conte lenti svo saman á æfingasvæðinu þegar sóknarmaðurinn tjáði honum að hann vildi fara til kínverska félagsins Tianjin Quanjian í janúarglugganum. Costa fór svo til Atlético Madrid í þeim glugga.

Conte vildi fylla skarð Costa með Alexis Sánchez, sem var á förum frá Arsenal en Manchester United hafði betur í þeirri baráttu. Það var kornið sem fyllti mælinn í riffrildi Conte við Michael Emenalo, sem hætti störfum sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Chelsea.

Gekk í burtu með fullar hendur fjár

Deilur við stjórn Chelsea um leikmannamál enduðu í störukeppni sem leiddi til þess að ítalski knattspyrnustjórinn fékk sparkið. Auk þess þótti fimmta sætið í ensku úrvalsdeildinni ekki ásættanlegur árangur þrátt fyrir að Chelsea hafi orðið enskur bikarmeistari.

Málið fór síðar fyrir dómstóla þar sem Chelsea var dæmt til þess að greiða Conte og þjálfarateymi hans 26 milljónir punda í skaðabætur vegna brottrekstursins.

Það duldist raunar engum að Conte var á leið úr stjórastólnum hjá Chelsea fljótlega þegar undirbúningur hófst fyrir nýtt tímabil sumarið 2018. Conte var eins og draugur á æfingasvæðinu þegar leikmenn komu til baka frá heimsmeistaramótinu og deilur hans við stjórn félagsins voru öllum ljósar. Conte var svo látinn taka pokann um miðjan júlí árið 2018.

Conte var léttur í lundu eftir sigur Chelsea gegn Manchester United í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Nokkrum mánuðum síðar var gleðin á enda og hann var farinn frá félaginu.
Fréttablaðið/Getty