Cloé Lacassé, leikmaður Benfica, er ekki komin með leikheimild með íslenska landsliðinu og kom því ekki til greina í komandi verkefni kvennalandsliðsins.

Jón Þór Hauksson tilkynnti í dag leikmannahóp íslenska landsliðsins fyrir æfingarmót á Spáni.

Cloé sem er markahæsti leikmaður portúgölsku deildarinnar hjá toppliði Benfica er ekki í leikmannahópnum.

Ólíkt Cloé er Natasha Anasi, leikmaður Keflavíkur komin með leikheimild með íslenska liðinu þrátt fyrir að styttra sé síðan Natasha fékk ríkisborgararétt.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins tengist það kröfum FIFA um dvalartíma í landinu sem er að skipta um landslið en Jón Þór segir að verið sé að vinna í málinu, bæði hjá FIFA og KSÍ.

„Við höfum verið í sambandi við Cloé og þetta er leiðinleg bið fyrir báða aðila,“ sagði Jón Þór í samtali við Fréttablaðið.

„Þótt að Natasha hafi fengið ríkisborgararrétt á eftir Cloé fékk hún leikheimild strax en við erum í ákveðnu ferli að fá leikheimild fyrir Cloé og vonandi fáum við svör sem allra fyrst með það.“